Kabbalah á Íslandi

 

Starfssemi okkar hófst í febrúar 2007 þar sem við héldum okkar fyrsta kynningarfund í sjálfstæðishúsinu í Kópavogi til að kynna þessi mögnuðu fræði og gera þau aðgengileg fyrir íslendinga og aðra, og hafa verið margir fundir haldnir síðan og sífellt fleiri Kabbalistar bæst við hópinn. Í september 2011 opnuðum við síðan fyrstu Kabbalah Miðstöðina í sögu íslands og á norðurlöndum og hefur hún verið starfrækt allar götur síðan.

 

Markmið

 

Okkar megin tilgangur er að gera visku og vísdóm Kabbalah aðgengilegan fyrir íslendinga, stuðla að útgáfu á efni tengdum fræðunum ásamt því að veita þeim sem vilja taka upp Kabbaliskan lífsstíl stuðning, tæki og tól sem til þarf.

Kabbalah Miðstöðin er ekki trúfélag enda er ekki verið að tilbiðja heldur að vinna með andlega tækni og þekkingu sem er opin öllum óháð, kyni, kynheigð, litarhætti, menningarheimi, trúarbrögðum og lífsskoðun.

 

Grunnkenningar Kabbalah

Kabbalah þýðir að meðtaka, fræðin kenna okkur að ef við viljum öðlast og meðtaka þær gjafir sem voru og eru ætlaðar okkur til að njóta, þá þurfum við fyrst að læra með hvaða hætti við getum meðtekið og nálgast þessar gjafir. Við eignumst þær með því að framfylgja því verkefni sem við tókum að okkur á þessu lífsskeiði sem leiðir okkur á þann stað að við verðum að horfast í augu við og vinna úr þeim neikvæðu uppsprettum sem kunna að vera í kringum okkur og í okkur. Kabbalah veitir einstaklingnum þau verkfæri og þekkingu sem til þarf til kalla fram jákvæðar breytingar í lífi einstaklingsins. 

 

Kabbalah kennir að sérhver einstaklingur er verk í vinnslu. Sérhver sársauki, vonbrigði eða sú ringulreið sem kann að vera í lífi okkar er ekki vegna þess okkur hefur verið ætlað að lifa í þeirri ánauð sem slíku fylgir, heldur vegna þess að við höfum ekki lokið að vinna úr þeim hlutum sem komu okkur á þann stað. Sú vinna felst einfaldlega í því að læra að losna undan því að stjórnast af sjálfinu eða sjálfselsku okkar og tengja okkur við gefandi kjarna ljósins.

 

Í daglegu tali fjallar þessi breyting um að láta af hatri, öfund, og allri neikvæðri hegðun sem kemur niður á öðrum og skaðar og að læra að sýna öðrum skilning, umhyggju og þolinmæði gagnvart þeim sem ganga fram í slíkri hegðun.