Stutt saga Kabbalah

 

Abraham

(um. 2000 f. Kr.)

 

Fyrsta ritið sem skrifað var um Kabbala var Bók Myndunarinnar og var höfundurinn Abraham patríarki, faðir Gyðingatrúarinnar, kristindómsins og múhameðstrúarinnar, en hann var uppi fyrir meira en 4000 árum. Bók Myndunarinnar er sögð innihalda alla leyndardóma alheimsins og samt er hún aðeins nokkrar blaðsíður. Hvernig getur þetta verið?

 

Auðvitað má sýna heilmikið í samþjöppuðu formi, eins og Einstein sannaði í hinni frægu formúlu sinni, E=mc². Í þessum fimm táknum er að finna stærðfræðilegt innsæi sem hjálpar mönnum að skilgreina og útskýra leyndardóma tíma, rúms, orku og efnis.

 

Bók Myndunarinnar er önnur slík formúla. Alveg eins og formúla Einsteins krafðist víðtækrar stærðfræðilegrar þekkingar, voru aðeins þeir, sem orðnir voru fullnuma í Kabbala, færir um að skyggnast inn í leyndarmálin í þessari helgu bók.

 

Sáðkorn allra trúarbragða

 

Þessi forni Kabbaliski texti hafði áhrif á flest af hinum miklu trúarbrögðum heimsins. Til hans er vitnað bæði í Mormónsbók og Kóraninum og er hann nefndur Bók Abrahams.

 

Mikilvæga hluta af Kabbaliskri speki Abrahams, gaf patríarkinn einnig nokkrum barna sinna sem síðan voru send til Austurlanda til að þróa andlegar leiðir sem við þekkjum nú á dögum sem Zen Búddisma og Hindúisma. Í sannleika sagt má rekja öll trúarleg kerfi og andlegar kennisetningar til Kabbaliskrar speki.

 

Kabbalisk speki í heild sinni var mörgum kynslóðum seinna fengin mesta spámanni sem heimurinn hafði nokkru sinni augum litið.

 

Móse

(1446 f. Kr.)

 

Fyrir meira en 3.300 árum stóð Móse á tindi Sínai-fjalls og veitti viðtöku tveimur töflum sem á voru letruð Boðorðin tíu. Í sannleika sagt er sagan um Móse og Boðorðin tíu dulmál sem kemur bókstaflegri merkingu ritningarstaðanna ekkert við.

 

Kannski er algengasti misskilningurinn skilningur manna á Boðorðunum tíu. Guð stjórnar ekki með boðum. Og Guð skipar ekki fyrir. Og ekki refsar Guð eða verðlaunar. Ef þú stingur fingri þínum í rafmagnsinnstungu í vegg og færð í þig rafstraum, þá er órökrétt að segja að rafmagnið hafi refsað þér. Og á sama hátt, ef þú stingur viftu í samband á brennheitum sumardegi til að kæla þig dálítið, segir þú ekki að rafstraumurinn hafi verðlaunað þig. Fremur byggist það á því hvernig þú umgengst þennan kraft hvort þú finnur til sársauka eða þæginda.

 

Heitið Boðorðin tíu er kóði fyrir hinar tíu víddir og þá andlegu orku og Ljós sem dvelja í 99 prósent raunveruleikanum. Ef við stingum okkur í samband við þetta Ljós með tilstyrk sjálfsins, verður sársaukafullt skammhlaup.

Ef við stingum okkur í samband á framsækinn hátt, tekur Ljósið að lýsa.

 

Forn tækni

 

Móse hagnýtti sér tækni Kabbala til að stinga 1 prósenti okkar í samband við 99 prósentin. Það er merking Boðorðanna tíu og opinberunarsögunnar. Að því búnu dulkóðaði Móses þessa Kabbalisku speki á dulbúnu tungumáli myndlíkinga og dæmisagna og skráði þær í bækur sem kunnar urðu sem Mósebækurnar fimm í Biblíunni. Hinum sönnu leyndardómum, aftur á móti, var haldið leyndum og þeir lifðu aðeins í munnlegri geymd, þegar þeir voru opinberaðir fáeinum verðugum niðjum í einni kynslóð á eftir annarri.

 

Móse tókst ekki að binda enda á hina öngþveitiskenndu útgáfu af leik lífsins á Sínaí-fjalli, vegna þess að Ísraelsmenn voru ekki enn reiðubúnir að fórna sjálfi sínu. Þeir kvörtuðu og kveinuðu og mæddust yfir lífinu í eyðimörkinni og kröfðust að Móse færi aftur með þá til Faraós. Eins og við höfum lært hér í bókinni, eru þessar kvartanir, sem greint er frá í Biblíunni, kóði eða dulmál. Egyptaland er kóða-orð fyrir efnisheiminn, Faraó táknar hið mannlega sjálf.

 

Ísraelsmenn langaði ekki til að láta af afturhaldssamri og sjálfhverfri hegðun sinni. Þessi neikvæða hegðun skapaði síðan leið fyrir and-Kabbalista, sem líka eru nefndir hinn “margbreytilegi múgur” til að vinna skemmdarverk á opinberuninni á Sínaí-fjalli. Þessir and-Kabbalistar gengust fyrir smíði gullkálfsins. Sá atburður aftengdi heiminn 99 prósentunum. Töflurnar og Kabbalisk speki Móse voru síðan geymd í Sáttmálsörkinni og fór svo að hún var mönnum hulin í þúsundir ára.

 

Pýþagóras

(um. 400 f. Kr.)

 

Pýþagóras var einn mesti andi sögunnar. Tónlist, stærðfræði og önnur vísindi eiga þessum manni mikla skuld að gjalda. Samkvæmt Hermippusi frá Smyrnu (um. 200 f. Kr.), hinum forna ævisöguritara, sótti Pýþagóras allar hugmyndir sínar og kenningar í fræði Ísraelsmanna og Móse. Hermippus sakar Pýþagóras jafnvel um ritstuld, segir að hann hafi stælt Kabbaliska og biblíulega speki og notað hana sem hún væri hans eigin hugverk og kynnt hana Grikkjum að því búnu.

 

Dr. Seath Pancoast (1844-1916) var prófessor í smásjár-líffærafræði og líffræði við deildir í Penn læknaháskólanum. Hann, ásamt Thomas Edison, var meðal fyrstu meðlima og einn stofnenda Guðspekifélagsins. Dr. Pancoast skrifaði:

 

Pýþagóras var einn athygliverðasti maður sinnar tíðar; ekki aðeins var hann á undan sinni samtíð hvað lærdóm í almennum skilningi snertir, heldur var hann líka Kabbalisti af hæstu gráðu.

 

Lamblicus (250-325 e. Kr.), sem er kunnastur af fornum ævisöguhöfundum Pýþagórasar, skrifaði:

 

Pýþagóras átti samræður við spámenninna sem voru afkomendur Móse, alfræðingsins.

 

Plató

(um. 400 f. Kr.)

 

Þegar Isaac Newton var að rita hin guðfræðilegu handrit sín, velti hann vöngum yfir hvort Plató hefði fengið leynda þekkingu sína að láni hjá Kabbalistum og notað hana sem undirstöðu heimspekikerfis síns. Kennari Newtons, Henry Moore, sagði einnig að speki Platós væri frá Kabbalistum komin. Dr. Pancoast, sem var sammála þeim Newton og More, skrifaði:

 

“Einnig Plató var eindreginn og afar greindur Kabbalisti.”

 

En þótt mörgum mestu andans mönnum sögunnar væri gefin takmörkuð innsýn í þessa speki, varð sú stund, þegar speki Kabbala í heild sinni var opinberuð í handritsformi, að bíða komu mesta Kabbalista allra tíma.

 

Jesús

(Jósúa rabbíni, sonur Jósefs, 1. öld)

 

Samkvæmt Kabbalistum var hann hinn mögulegi Messías sinnar kynslóðar, kunnur sem Messías, sonur Jósefs. Hann lærði hina Kabbalisku tækni helgisiðalegrar niðurdýfingar í vatn og Kabbaliska hugleiðslu af Yochanan niðurdýfara (Jóhannesi skírara). Í guðspjöllum Tómasar, sem hafa að geyma leyndar kenningar Jesú, sem aðeins nánustu lærisveinar hans fengu að heyra, kennir hann að Ljósið sé uppruni alls mannkyns og að sérhver manneskja sé neisti af því guðlega. Allar manneskjur eru álitnar vera “börn Ljóssins”. Það var Kabbala sem hann notaði til að vinna verk á borð við lækningar og önnur undursamleg kraftaverk.

 

And-Kabbalistar greindu Rómverjum frá Kabbaliskum iðkunum hans – alveg eins og þeir tilkynntu þeim um aðra Kabbalista á þessu tímabili – og hann var líflátinn.

 

Aðrir ofsóttir Kabbalistar

 

Hinn mikli vitringur, sem þekktur er sem Akiva, var fleginn lifandi opinberlega af Rómverjum fyrir framan um það bil 20.000 áhorfendur. Kabbalistinn Ishmael, sonur Elísa, var fleginn, andlitið rist af höfði hans og gefið dóttur Rómarkeisara. Vitringur sá, sem kunnur er sem Gamalíel, var afhöfðaður. Allir þessir vitringar voru meistarar í Kabbaliskum iðkunum.

 

Bæði Jesús og Akiva læstu alla sína Kabbalisku speki í blekkjandi einfaldan og djúpvitran ritningarstað sem fenginn er úr Gamla testamentinu: “Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig”.

 

Zohar fullyrðir að dauði mikils vitrings í Kabbala-fræðum, hjálpi til við að afmá og uppræta syndir kynslóðar hans eða hennar. Af því leiðir að Kabbalistar telja að þessar miklu sálir hafi einnig verið líflátnar til að þvo burt syndir þeirra samlanda sinna í Ísrael, sem enn neituðu að láta sjálf sitt af hendi, alveg eins og þeir neituðu því á Sínaí-fjalli.

 

Þessir miklu Kabbalisku vitringar voru álitnir vera “Synir Guðs”. Reyndar segir Zohar að <i>sérhver </i>sem rannsakar hina Kabbalisku speki hans sé kallaður “Sonur hins Heilaga” (Sonur Guðs) og “Sonur Föðurins”. Eigi að síður var þessum og öðrum Kabbaliskum leyndardómum haldið stranglega leyndum fyrir íbúum jarðarinnar í árþúsundir.

 

Verra var að þegar búið var að útrýma flestum Kabbalistanna, voru Rómverjar og and-Kabbalistar alveg að því komnir að útþurrka Kabbala úr landslagi siðmenningarinnar. En Akiva lét einn nemanda eftir sig sem meistarinn fékk það hlutverk að halda spekinni lifandi. Nafn hans var Símon, sonur Yohai.

 

Símon rabbíni , sonur Yohai

(2. öld, um 160 e. Kr.)

 

Hann var vígður sem Kabbaliskur meistari og kennari af hinum mikla Júda Ben Baba, sem sjálfviljugur fórnaði lífi sínu sínu til að vígja hinn frábæra Kabbalista Símon.

 

Þetta verk Baba var brot á rómverskum lögum og líkami Júda var&#160;nístur og ristur með meira en 300 örvum og lensum.

 

Risinn meðal allra Kabbalista, Símon bar Yohai, var dæmdur til dauða af rómverska keisaranum Hadríanusi eftir að enn einn and-Kabbalisti hafði tilkynnt rómverskum yfirvöldum um Símon bar Yohai.

 

En Róm stóðst þessum Kabbalista ekki snúning á nokkurn hátt. Hann notaði tækifærið til að leggja upp í sögufræga, andlega könnunarferð með því að einangra sig í helli í Meron í Ísrael næstu 13 árin í lífi sínu. Hann gróf sig í jörð upp að hálsi á hverjum degi og var þannig fær um að hefja sig í miklar andlegar upphæðir með Kabbaliskri hugleiðslu. Þessi 13 ára einangrun hans gerði hann hæfan til að vinna það verk að opinbera gjörvalla speki Kabbala sem kallast Zohar.

 

Zohar var og heldur áfram að vera mikilfenglegasta verkið um Kabbala.

 

 

Særingar eða vísindi

 

Í aldanna rás hafa and-Kabbalistar óttast Zohar vegna máttar hans og þess sannleika sem hann hafði að flytja. Aðrir álitu Zohar-handritið verk um dulspeki og töfra. Þegar litið er um öxl er ástæðan augljós:

 

Zohar útlistar hugmyndir og hugtök sem voru mörgum öldum á undan sínum tíma.

 

Á öld þegar vísindin slógu því föstu að jörðin væri flöt, lýsir Zohar plánetu okkar sem kúlulaga og segir að mannfólkið fái yfir sig dag og nótt á mismunandi tímabeltum.

 

Zohar lýsir andartaki sköpunarinnar sem sprengingu er minnir á Stóra hvell.

 

Hann ræðir um alheim sem sé í tíu víddum.

 

Hann fer í saumana á hugmyndum um samhliða alheima og svört göt.

 

Á fornum tíma voru þessar hugleiðingar villutrúarkenndar og óttalegar. Samt eru þær ekki undraverðustu hugleiðingarnar sem sjá má í Zohar. Sú umsögn á við eftirfarandi hugmynd ...

 

Símon bar Yoshai segir að Zohar sé meira en bók leyndardóma og speki. Hann er máttugt, orkugefandi áhald, tæki sem frelsar úr lífsháska og er jafnframt – í og af sjálfum sér – þrunginn afli til að&#160;færa raunverulegan frið, vörn, lækningu og fullnægju hverjum þeim sem er eigandi hinna raunverulegu, áþreifanlegu bóka.

 

Og svo er meira.

 

Líkt og steindrangurinn í kvikmyndinni 2001: Ódysseifsför í geimnum, getur Zohar tendrað eld í sál heillar kynslóðar og komið til leiðar djúptækri breytingu og ummyndun í meðvitund mannlegra vera og þjóðfélaga. Með öðrum orðum, alveg eins og ljósapera lýsir upp dimmt herbergi og leiðir í ljós hluti sem áður voru ósýnilegir, varpar Ljós Zohar birtu inn í huga mannanna svo þeir sjá hulda leyndardóma algeimsins aðeins með nærveru sinni.

 

Samkvæmt Kabbala munu þessi ósýnilegu áhrif á endanum hjálpa til við móta örlög mannskyns, eftir því sem þekking á kenningum Zohars eykst í heimi okkar.

 

Dimmu aldirnar

 

Hinn mikli Kabbalisti Símon bar Yohai fullyrti að sá dagur kæmi þegar meira að segja sex ára gamalt barn gæti komist til botns í andlegri speki Kabbala. En þar til sá tími kæmi yrðu hin upprunalegu handrit Zohars að vera falin. Og þau lágu falin öldum saman. Dofnun hins andlega Ljóss Zohars á sér stað meðan Dimmu aldirnar líða hjá, tími þegar sérhvert svið siðmenningarinnar, þar á meðal menntun, vísindi og samgöngur, sváfu næstum fullkomnum dásvefni.

 

Kabbalistinn Móse Deleon

(13. öld, c. 1270)

 

Hinn mikli spænski Kabbalisti Móse Deleon frá Tóledó á Spáni, gerði afar óvænta uppgötvun þegar hann rakst á Zohar-handritið á 13. öld. Satt að segja fölnar hinn nýlegi fundur Dauðahafshandritanna í samburði við þann atburð er Zohar fannst.

 

Bæði Zohar sjálfur og Daníelsbók fullyrða að leyndin mundi vara í 1200 ár (100 ár fyrir hverja af kynkvíslum Ísraels) og hefjast með eyðileggingu hins Helga musteris.

 

Musterið í Jerúsalem var eyðilagt af Rómverjum árið 70 eftir Krist.

 

Móse Deleon uppgötvaði Zohar árið 1270 – 1200 árum síðar, eins og Zohar og Daníelsbók höfðu vænst.

 

Steindrangsáhrifin

 

Uppgötvun Móse Deleon var almennt ekki veitt athygli í heiminum. En hún markaði sögulega þýðingarmikil þáttaskil þar sem Ljós Zohar tók nú að ljóma í heiminum í fyrsta sinn í sögu mannskyns. Dularfullir ritningarstaðir hans gerðu verkið óaðgengilegt fjöldanum; samt sem áður fullyrða Kabbalistar að orkan, sem stafaði frá dulrænum texta Zohar, hafi tendrað neista í undirmeðvitund heillar kynslóðar.

 

Um það bil fimm árum eftir að Deleon gaf Zohar út, sá hinn kunni heimspekingur Roger Bacon fyrir sér framtíð þar sem skip sigldu niðri í sjónum, vélar flugu um himininn og bátar sigldu án segla eða ára. Þetta hljómaði mjög líkt og einhver dulfræði í eyrum samtíðarmanna Deleons og Bacon var senn fangelsaður fyrir villutrú.

 

Ekki löngu síðar kom Nicholas Oresme, heimspekingur, hagfræðingur, stærðfræðingur, eðlisfræðingur og einn þeirra manna sem lögðu grundvöllinn að nútímavísindum, fram með kenningar um að jörðin hreyfðist, 200 árum á undan Kóperníkusi. Hann skrifaði um eðli, endurkast og hraða ljóssins – hugtök sem fjallað er um í löngu máli í Zohar.

 

 

Hinn ósvikni, helgi Gral

 

Um leitina að hinum löngu týnda, helga Gral, hefur verið fjallað í samtímabókum og kvikmyndum og í sögum og kveðskap frá miðöldum. Gral hefur verið skilgreindur á marga vegu, ýmist sem kaleikur frelsunarinnar, steinn, blóðrautt sverð og jafnvel sem vegur andlegrar umbreytingar. Meðal algengra tákna sem fyrir koma í sögum um Gral má nefna riddara, rós, Tré lífsins og Gral-kastalann. En hér kemur það sem forvitnilegast er: Allar þessar lýsingar og tákn, allt niður í smæstu atriði, er að finna í Zohar.

 

Og það sem meira er, frægasti höfundurinn sem ritaði um Gral, Wolfram von Eschenbach, sagðist hafa fengið söguna um Gral hjá dulspekingi af gyðingaættum í Tóledó á Spáni á 13. öld. Zohar fannst fyrst í Tóledó á Spáni á 13. öld – á tíma þegar Kabbala var þekktasta og eftirsóttasta form andlegrar speki á Spáni. Kabbalistar í Frakklandi, einkum einn, sem þekktur var undir nafninu Ísak blindi, skrifaði bréf þar sem hann varaði spænsku Kabbalistana við því að opnbera almenningi þessi Kabbalisku leyndarmál, því þá yrði tekið að falbjóða þau og dreifa þeim á markaðstorgum.

 

Samkvæmt Kaþólsku alfræðibókinni er ítarlegustu frásögnina um hið sanna eðli Grals að finna í bók frá 13. öld sem nefnist Hinn mikli heilagi Gral . Í þessu miðaldahandriti er þessi heilagi Gral nefndur “bókin um undravert Ljós”. Enn fremur segir að það eitt að mæna aðeins á Gral yfirbugi dauðann og veiti lækningu. Hinn & óræki vitnisburður um að Zohar sé hinn torfundni, heilagi Gral verður betur rannsakaður og útskýrður í síðari bók.

 

Kabbalistinn Isaac Luria (Ari)

(16. öld, 1534-1572)

 

Kabbalistinn Isaac Luria var undrabarn sem sökkti sér djúpt niður í dulrænar furður Zohars. Kallaður “Ari” eða “Ljónið helga”, ritaði hann sögulega merkar athugasemdir um Zohar sem fjarlægðu mörg lög torræðni sem meinuðu skilning á hinum flókna texta. Kenningar Aris urðu hinn óumdeildi skóli í Kabbaliskri hugsun. Kristnir fræðimenn tóku brátt að þýða rit hans á latínu, svo Kabbalisk speki Aris gat nú haft áhrif á mestu andans menn Endurreisnartímans, sem þar með áttu þátt í að vekja upp vísindabyltingu næstu aldar. Allt efni þessarar bókar á sér rætur í Kabbala-rannsóknum Luria.

 

Hvelfingunum lokið upp

 

Einnig gerðist það á 16. öld að Kabbalistinn Abraham Azulai (1570-1643) gaf út boðskap sem nam úr gildi öll bönn varðandi nám í Kabbala, en slík bönn höfðu gilt frá árinu 1540. Þetta var í fyrsta sinn í sögu mannskyns sem hægt var að gera Kabbala aðgengilegt öllum, jafnvel sex ára gömlu barni.

 

Leyniþjónustumaðurinn 007

 

En svo við tökum upp léttara hjal, þá á enski leyniþjónustumaðurinn James Bond tilveru sína Kabbala að þakka að nokkru.

 

Dr. John Dee (1527-1608) var fremsti stærðfræðingur og vísindamaður Englands. Dr. John Goldish kallar John Dee snjallasta mann sinnar samtíðar. John Dee, sem gat sér alþjóðlega frægð fyrir snilligáfu sína, lagði stund á vísindi, stærðfræði, heimspeki, landafræði, húsagerðarlist og málaralist. Hann var einnig Konunglegur stjörnufræðingur og sem slíkur ráðgjafi Elísabetar I. Samkvæmt prófessornum og fræðimanninum Deborah Harkness við Kaliforníu-háskóla var Dee líka dulfræðingur sem lagði stund á Kabbala.

 

John Dee var ef til vill mikilvægasti og áhrifamesti náttúruheimspekingur og vísindamaður sem lifði og starfaði í Englandi á 16. öld. John Dee átti afar mikið bókasafn um Kabbala. Hið besta safn slíkra bóka, sem til er í Englandi, er frá 16. öld. Það var Kabbala sem var driffjöðrin í öllu hans starfi.

 

Samkvæmt Harkness var Dee sannfærður um að Kabbala gæti opinberað hinn leynda sannleika um náttúruheiminn, þar sem það geymdi dulin skilaboð sem Guð hefði fólgið í hinum efnislega raunveruleika okkar.

 

Donald McCormic, erlendur ritstjóri London Sunday Times og höfundur bókarinnar Saga bresku leyniþjónustunnar, var kunningi Flemings, höfundarins sem skapaði James Bond. Í bók sinni segir McCormic að FLeming hafi komist á snoðir um að Dee hafi stundað nokkra njósnastarfsemi fyrir drottninguna. Hann hefði gefið ensku leyniþjónustunni ráð varðandi dulkóðun og dulmálstækni. Dee undirritaði trúnaðarskýrslur til drottningarinnar með tveimur hringjum, (OO), sem merktu að hann var “augu” drottningarinnar og talan 7 er mikilvæg Kabbalisk tala.

 

Fleming byggði James Bond á John Dee og notaði einkennisstafina 007 sem heiðursheiti þessa breska leyniþjónustumanns.

 

Kabbala og vísindabyltingin

(17. öld)

 

Þeir sem lifðu á 17. öld urðu vitni að snöggri og óútskýranlegri sprengingu í vísindalegum framförum. Fræðimenn og vísindamenn höfðu enga hugmynd um vegna hvers þessi skyndilega vísindalega blómgun átti sér stað. En á grundvelli nýrra vísbendinga lýsa sumir fræðimenn þeirri skoðun að það hafi verið Kabbala sem á djúptækan hátt hafði áhrif á mestu vísindamenn og stærðfræðinga 17. aldar. Þessi tími var mjög frábrugðinn okkar tímum. Á okkar tímum eiga vísindi og andleg fræði í stríði sín á milli. Á 17. öld voru skilin milli andlegra fræða og vísinda, raunvísinda og háspeki, satt að segja ekki til.

 

Eldgos þekkingar

 

Hinn mikli sagnfræðingur Max Dimont skrifar í metsölubók sinni Gyðingar, Guð og sagan, Vestræn heimspeki og vísindi, sem dáið höfðu út með Grikkjum og Rómverjum á annarri öld eftir Krist, endurfæddust á sextándu og sautjándu öld.

 

Dimont bætir við: “Eitthvað hlýtur af hafa kveikt fyrsta neista þessarar endurfæðingar, en hvað var það?” Dimond eignar Kabbala heiðurinn: “Öll þessi Kabbalisku fræði geta jafnvel hafa átt mikinn hlut í hinni skyndilegu blómgun vísinda á sautjándu öld.”

 

Þegar hann ræðir um þessa skyndilegu vísindabyltingu, fullyrðir fræðimaðurinn A.C. Crombie í bók sinni <i>Vísindi miðalda og upphaf nútímvísinda, “Vegna hvers slík bylting í aðferðum og hugsun gat átt sér stað er á huldu.”

 

En Dimont segir að könnun á hlutverki Kabbalista miðalda sem vísindamanna “kunni að varpa nokkru ljósi yfir hið skyndilega eldgos vísindalegrar snilli í Vestur Evrópu á sautjándu öld.”

 

Hin upprunalega leynda speki

 

Prófessor Allan P. Coudret heldur því fram í bók sinni <i>Áhrif Kabbala á 17. öld að “Kabbla-fræði Luria verðskuldi sess sem þau hafi aldrei notið í sögu vestrænna vísinda og menningarþróunar.”

 

Til dæmis var hinn mikli stærðfræðingur Leibniz, sem á sama tímabili og Sir Isaac Newton fann upp reiknistokk, sem við minnumst úr þreytandi stærðfræðitímum í skóla, undir djúpum áhrifum Kabbala.

 

Bæði Leibniz og Newton og ágætir jafningjar þeirra trúðu að í Kabbala væri lifandi komin forn, leynd speki sem kallaðist prisca theologia. Prisca theologia skírskotar til leyndrar speki sem Guð hafði, svo enginn vissi, opinberað Móse á Sínaí-fjalli. Leibniz, Newton og fremstu vísindamenn Endurreisnarinnar trúðu að ef þessi hreina speki væri enduruppgötvuð og opinberuð heiminum í sínu ósvikna, ómengaða formi, þá kæmi hún til leiðar heimsfriði. Þessi leynda speki mundi leggja undirstöðuna að sönnum allsherjar-trúarbrögðum og má með því út þá trúarlegu árekstra sem skilið hafa landslag mannlegrar siðmenningar eftir löðrandi í blóði.

 

Coudret skrifar, “Kabbalisk rit voru almennt talin vera mikilvægasta einstaka uppsprettan til endurheimtar þessarar fornu speki ... í þeim var að finna fyrstu og hreinustu uppsprettu þessarar guðlegu þekkingar.”

 

Raunar sagði Leibniz, einn frábærasti gáfumaður 17. aldar, sænska fræðimanninum Erik Benzelius, frá “áformum sínum um að stofna félag lærdómsmanna sem rannsökuðu Kabbala, reiknistokkinn, dulfræði og tækni.”

 

 

Ísakarnir tveir: Luria og Newton

 

Sir Isaac Newton, maðurinn sem mesta ábyrgð ber á vísindabyltingunni og upphafi aldar Upplýsingarinnar, nam Kabbala af miklum alvöruþunga. Hann gekk meira að segja svo langt að hann fór að læra hebresku.

 

Í bók sinni, rúarbrögð Isaacs Newton, segir fræðimaðurinn Frank Manuel, “Móse þekkti allan vísindalegan sannleika – það var Newton viss um.”

 

Fræðimaðurinn Richard Popkin segir að Newton hafi litið á Biblíuna sem “sem dulmál” sem geymdi í sér hin sönnu leyndarmál alheimsins. “Viðhorf Newtons til Biblíunnar voru þau sömu og Kabbalistanna.”

 

Fræðimaðurinn George Zollschan, segir í bæklingi sínum “Skynsvæði Guðs: Kabbaliskur vaxtarsproti Newtons”, að hin fræga lýsing Newtons á geimnum sem sensorium dei sé afleiðing Kabbaliskra áhrifa.

 

Sensorium dei þýðir að Guð komi til leiðar sköpun og hreyfingu með með því að “skynja” fremur en að vilja eða tala. Þessi hugmynd, fullyrðir Zollscha, á sér aðeins eitt fordæmi: Kabbaliskar kenningar Ari (Isaacs Luria).

 

Í ljós hefur komið að Newton átti sitt eigið eintak af Kabbalah Denudata, latnesku þýðinginni á Zohar og Kabbaliskum skrifum Ari.

 

Dr. Pancoast skrifaði, “Newton var leiddur á vit uppgötvunar þessara afla (aðdráttaraflsins og miðflóttaaflsins) af rannsóknum sínum á Kabbala.”

 

Fræðimaðurinn Serge Hutin skilgreindi Newton meira að segja sem “kristinn Kabbalista”.

 

 

Fyrri hluti 20. aldar

 

Það var ekki fyrr en við upphaf 20. aldar að Kabbalistinn Rav Yehuda Ashlag, frjóasti dulfræðingur þessa tímaskeiðs, réði fram úr skrifum Ari og texta Zohars. Það var stórkostlegt og sögulegt afrek. Og nú var speki Kabbala aðgengilegri en nokkru sinni fyrr. Menn þurftu ekki gáfnakraft Newtons eða Plató til að skilja þessa geigvænlegu leyndardóma. En minnast verður á að þetta þóknaðist ekki vissum hópum í trúarsamfélaginu. Í einu af grimmdarlegum tiltækjum and-Kabbalista meðal kynslóðar hans var Rav Ashlag skilinn eftir liggjandi í blóði sínu á þrepum Lærdómsmiðstöðvar sinnar.

 

En Rav Ashlag sökkti sér ótrauður jafnvel enn dýpra niður í Zohar af óbilandi ákafa og svipti hulunni af mestu leyndardómum hans. En langmestur meirihluti heimsins veitti sögulegu verki hans litla athygli og ekki gátu menn komið auga þau áhrif sem það hafði.

 

 

Hugtök eins og afstæði, geimferðir, lækningar, samhliða alheimar, undirrót hjartasjúkdóma og tengsl þeirra við blóðfituna og mál sem vörðuðu velferð mannkyns voru rituð á dulmáli í Zohar fyrir um það bil 2000 árum. Snilligáfa Rav Ashlag lá í hæfileika hans til að draga þessa leyndardóma í Kabbaliska textanum fram í dagsljósið.

 

Zohar var nú jafnvel enn aðgengilegri og <i>augsýnilegri en hann hafði verið meðan vísindabyltingin stóð yfir. Það var tvímælalaust ekki tilviljun að Zohar birtist í hinum veraldlega heimi okkar á sömu öld og varð vitni að meiri tæknilegum framförum en allar fyrri aldir til samans. 

 

Miðbik 20. aldar

 

Helsti lærisveinn Rav Ashlag, Kabbalistinn Yehudah Brandwein fullkomnaði og gaf út hin stórfelldu Zohar-skrif meistara síns. Þótt hann væri guðhræddur og rétttrúaður, var Rav Brandwein maður hins venjulega fólks. Hann var sérstaklega elskaður af hinum ekki-trúhneigðu manngerðum, sem var merkileg þversögn. Hann var ljúf, yfirlætislaus og lítillát sál sem reisti vinnupalla á byggingarsvæðum á daginn, en háreistar, andlega veraldir í tunglskininu.

 

Rav Brandwein tók við öllum sem á vegi hans urðu með fyrirvaralausum kærleika og velvild, án tillits til hverjar trúarskoðanir þeirra voru eða hvort þær voru nokkrar. Hann vakti djúpa væntumþykju hjá öllum sem hann komst í samband við. Bæði guðleysingjar og einlægir trúmenn báru mikla virðingu fyrir honum. Rav Brandwein kvaddi þennan heim árið 1969 eftir að hann hafði fengið hinn helga kyndil í hendur kærum nemanda sínum, Kabbalistanum Rav Berg.

 

Nútíminn

 

Rav Berg og kona hans Karen Berg rufu 2000 ára gamla hefð og trúarlegar kennisetningar og gerðu speki Kabbala aðgengilega öllum þeim sem höfðu einlæga löngun til að læra. Þessi djarfa framkvæmd kostaði sitt. Líkt og flestir Kabbalistar í sögunni urðu þau að þola líkamlegt ofbeldi, ótrúlegt níð í orðum og tilfinningalegan sársauka og þjáningar af hálfu and-Kabbalista – manna sem ákveðnir voru í að bægja Kabbala frá venjulegu fólki er leitaði ítarlegri svara í trúarbrögðunum en fólust í hinu hefðbundna svari, “Vegna þess að skrifað stendur ... 

 

Zohar sjálfur varaði við að “ríkjandi trúarleg yfirvöld” reyndu ætíð að koma í veg fyrir að fólk gerði kröfu til þess andlega máttar sem því bæri með réttu. Markmið þeirra væri að vera milligöngumenn milli mannkynsins og hins Guðlega – að starfrækja tollhlið er stæði milli Guðs og sálarinnar. Trúarleg yfirvöld mundu óttast hina altæku speki Kabbala, vegna þess að hún fær einstaklingunum (ekki rabbínum og prestum) verkfæri í hendur til að tengjast beint hinu óendanlega, takmarkalausa Ljósi Sköpunarinnar. Það merkti að þau yrðu að afsala sér hlutverki sínu sem hliðverðir himinsins.

 

Meistari Rav Berg, Rav Brandwein, hafði sagt honum að vegna þess að menn hefðu staðið afbrýðisaman vörð um andlega speki Kabbala svo mikinn hluta sögunnar, hefðu 95 prósent fólks snúið baki við trúarbrögðunum (og þú ert ef til vill meðal þeirra) því trúarbrögðin hefðu látið ógert (af ásetningi) að losa fólk við persónuleg vandamál sín, sársauka og þjáningu. Þetta er óvæginn veruleiki, en sannleikurinn eigi að síður.

 

Nú, þegar Rav Berg og Karen höfðu opnað hinar fornu hvelfingar Kabbala fyrir fjöldanum, hafði fólk hvar sem var tækifæri til að skilja vegna hvers við erum til; hvernig við komum hingað; og hvernig við getum fjarlægt sársauka, þjáningu, kvöl, ótta og öngþveiti úr persónulegu lífi okkar.